Nú er ég að breytast í svertingja

amk eru lærin á mér svört...  eftir að hafa dregið um 50 lömb og 20 veturgamlar ær í viðbót OG 4 fullorðna hrúta þá eru lærin orðin alveg götótt eftir hornin á fénu. Sérstaklega gimbrunum, en hornin á þeim eru svona beitt, og líka sérstaklega eftir þær veturgömlu, af því þær eru stærri og sterkari.

Við vorum semsagt að sprauta við garnaveiki. Það er svona pest í klauffénaði sem er verið að reyna að útrýma og þarf því að sprauta allt ásetningsfé. Keli var í Reykjavík og Mamma að vinna svo Pabbi var heima með Þorgerði litlu og ég mátti ein sjá um að draga allt féð og setja á rassinn, bara pínu sveitt...

En talandi um Mömmu þá átti hún stórafmæli um daginn. Hún tilkynnti okkur að hún ætlaði að vera heima en skyldi sko ekki baka neitt. Svo settist hún bara niður og við sköffuðum og bökuðum. Keyptum handa henni sett af tertuspaða, hníf, skeiðum og kökugöflum í afmælisgjöf og var hún mjög ánægð með það. Sveitungarnir (svona skrifuðu þeir undir í kortið) gáfu Mömmu barasta þennan forláta stól, í lazyboy stíl. Slatti af téðum sveitungum kom í kaffi eða kvöldkaffi og var allt bara gríðarlega vel heppnað.

Svo voru hrútarnir geltir og það var eins og við manninn mælt að við heimtum einn til viðbótar daginn eftir. Enn er slatti af kindum í Fellinu, en þeim er nú búið að fækka talsvert lömbunum sem vantar í bókina, líklega 10-12 óheimt, og þá er nú alveg óvíst að það sé allt á lífi sem var sleppt út í vor. Samt er nú mest af þeim sem vantar samstæðir tvílembingar eða einlembingar og mæður þeirra sem vantar líka, þ.a. mann grunar að þetta sé allt sprellifandi þarna innfrá.


Heimtum 9 lambhrúta!

Nú á einhver eftir að hvá...

...góði smalinn kom á svæðið á föstudag og bætti í á laugardag, þ.a. að vel hvítt var um morguninn. Svo milli élja í gær runnu kindahóparnir ofan úr brekku og í rúllurnar sem við stilltum upp úti fyrir þær. Þetta var ósköp spennandi, amk betra en venjuleg föstudags-dagskrá á ríkinu, lágum öll í stofuglugganum með kíki og skoðuðum féð. Enginn þorði út af ótta við að styggja þær og missa aftur upp í heiðar.

Þegar það var orðið vel skuggsýnt læddumst við fyrir féð. Vorum næstum búin að missa það, þökk sé einhverjum jepparibböldum sem voru að æfa vélar og ljós í nágrenninu. Kristján Hermann stökk þá í myrkrinu og náði fyrir féð, þá sneru þær við þægar og runnu inn í byrgi.

Fórum á álfadans u.m.f. Þórsmerkur að Goðalandi. Hittum sveitungana og sögðumst vera búin að heimta mikið.

Við rákum svo inn féð í morgun, Jens í Teigi var bara mættur fyrir klukkan 11 af einskærri forvitni og skoðaði féð með okkur. Við drógum 9, já ég sagði níu, lambhrúta úr hópnum. Það furðulega var að það var engin gimbur. Líklega engin ær nýheimt, en ég gáði ekki sérstaklega að því, það var þó engin í rúböggum sem ekki hafði komið áður í haust.

Nú eigum við skv. síðustu talningu 25 lambhrúta. Hér munu aftur allir spyrja hvort þetta sé eðlilegt. Við settum á fjóra til undaneldis og Frey og Krúna, syni Freyju, sem sauðaefni. Svo hafa bæst við 19 sem á bara eftir að gelda og senda í páskaslátrun. Við vitum að það eru fleiri inn á fjalli, vonandi nást þeir í tæka tíð til að slátra þeim líka.

Á sama tíma hafa sárafáar gimbrar bæst við, sennilega bara um 10, og við vorum búin að senda eitthvað af þeim í sláturhúsið í nóvember. Því eru flestar gimbrarnar til ásetnings eins og ætlað var og fáar óbeðnar inn á milli.


Dónalegt afgreiðslufólk

Ég vil nú byrja á að benda á að þessari grein er ekki á nokkurn beint gegn þeim sem eru væntanlega yfirkeyrðir af vinnu og álagi í kringum jól, áramót og janúarútsölur.

Ég og Böddi vorum að spjalla um hvað það getur verið óþolandi að versla og komu eftirfarandi dæmi upp sem við þolum verst:

  1. Afgreiðslufólk sem hvorki býður góðan daginn eða spyr hvort það megi aðstoða. Stendur bara og horfir á mann (ég horfi til baka) og gerir ekki neitt. Starfsfólkið þarf að eiga frumkvæðið. Þetta á sérstaklega við í sjoppum og bakaríum og þess háttar stöðum.
  2. Afgreiðslufólk sem setur debetkortið á borðið, jafnvel þó maður rétti út höndina eftir því. Jafnvel til að þeir hendi kortinu í áttina til manns. Í því tilviki hendir Böddi alltaf miðanum á gólfið...

Þessi tvö dæmi eru bæði þessleg að engin þörf er á sérstökum hæfileikum í mannlegum samskiptum.

Ég bauð kassadömu í Nettó gleðilegra Jóla á Þorláksmessu. Hún snar leit við, hissa á svip, eins og hún hefði ekki heyrt þetta fyrr þann daginn.


...gerðu smá gat á pokann og kveiktu í...!

héldu að það kæmi smá blossi. Það er býsna greinilegt að það þyrfti fyrst og fremst að stórefla fræðslu til unglinga (stráka) FYRIR áramót um hvað gerist ef þeir fikta. Það er til nóg af dæmum sem hægt er að safna saman og gefa út í bæklingi sem væri gefinn með gleraugunum, eða þá að gera stutta sjónvarpsauglýsingu.


mbl.is Vissu ekki um kraftinn fyrr en sprengingin varð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá er veðrið afstaðið

Í flóðunum undanfarna daga hafa auðvitað miklar hamfarir átt sér stað.vatnamæling Í innanverðri Fljótshlíð var sko líka nóg af vatni. Vatnshæðarmælir í Markarfljóti sýndi yfir 300 cm í stað 30 í vikunni á undan, en það er tíföld hækkun sem þýðir að vatnsmagnið hefur sennilega verið töluvert meira en tífalt.

Svo að lókal vötnunum, en Þórólfsá breiddi sér um mest-allan aurinn, og Markarfljót og Bleiksá hjálpuðust að við að ógna Bleiksárbrú.

Þórólfsáin leit svona út: Það er ekki auðvelt að taka myndir í grenjandi rigningu og roki en þessi nær nú vatnsmagninu ágætlega. Vatnavextir-Þórólfsá

Til samanburðar þá sýnir myndin "haust úr brekkunni" ágætlega þegar vatnsmagnið er eðlilegt.

Á sama tíma og þetta gekk yfir nánast tíðindalítið hjá okkur urðu stórflóð í grennd við Hvítá, í Eyjafirði og Skagafirði. Mér finnst mest aðdáunarvert að það hafi tekist að bjarga flestum skepnum sem lentu í hættu. Verst að heyra um kálfana sem drápust í skriðuföllum á Grænuhlíð og fjárstofninn á öðrum bæ í Eyjafirði sem drukknaði þegar flóðið kom.  


Pabbi hjálpsami

Núna er karl faðir minn orðinn svo hress eftir spítaladvölina fyrir viku að hann er meira að segja farinn að spranga óbeðinn út í fjárhús. Lítum á:

Í morgun skiptum við fénu sem er inni upp í tvo hópa, annan heldur mislitari en hinn. Stefndum að því að setja svo Frosta og Flekk hvorn í sinn hópinn eftir mat.

Þegar við komum heim talar Pabbi um hvort við förum ekki að setja hrúta í féð sem er heima, jú jú önsum við, eftir hádegi. Ætti ekki líka að sleppa út hrútum í féð sem er í heiðinni? Það væri ekki verra, svörum við einnig, við gerðum ráð fyrir að fara í það eftir mat. Á ekki bara að sleppa öllu fénu út? spyr hann að lokum. Nei, sjáðu til, við viljum hafa þær lokaðar inni með sínum hrút í nokkra daga enn.

Það er nú bara djöfulsins vitleysa, segir Pabbi.

Eftir mat, á þeim tíma sem Pabbi er nú vanalega að leggja sig, tekur Keli eftir því að hann er hvergi sjáanlegur og ákveður að drífa sig út í fjárhús. Um leið lít ég út um gluggann og sé Flekk koma út úr fjárhúsinu. Keli kemur út í hús og þar er Pabbi búinn að opna fyrir ærnar og semsagt ná í Flekk til að koma honum saman við hópinn. Ærnar voru nú þó ekki komnar út þar sem Spotti sat beint fyrir framan dyrnar.

Keli var eins og gefur að skilja reiður og Pabba fannst þetta fyndið. Þegar Pabbi kom inn fannst honum þetta enn fyndið og sagði Mömmu það. Hún minnti hann á það hann þyrfti bara að venjast þessu og að þetta hefði verið algjörlega óþarft hjá honum að vera að þessu.

Við skiptum fénu aftur, og það var alveg ljóst að nokkrar voru að ganga svo það er einmitt gott að okkur tókst að stöðva hann. Við slepptum ennfremur út þeim Sóla, Formanni og Funa svo þeir gætu farið og dandalast í heiðinni með fénu sem er á brúninni. Þær koma heim í heyið sem er á aurnum og koma vonandi nær fjárhúsinu næst.

Svo vona ég bara að ég geti haldið Pabba frá húsinu, að minnsta kosti þar til ég er búin að lista ærnar sem eru í hvorri kró.


Landsvirkjun eða einkavirkjun

Heyrði í fréttunum í dag að bóndinn í Akbraut í Holtum (sorrý, meina Rangárþingi Ytra) væri ekki sáttur vegna framkomu Landsvirkjunar, en það er verið að bjóða út verkhönnun virkjunar í neðri hluta Þjórsár og ekki hafa enn verið gerðir neinir samningar við landeigendur og ábúendur. Hann er svo í þeirri stöðu að vera aðeins ábúandi en sem slíkur á hann samt allar fasteignir á jörðinni og þarf að færa allann bæinn ef þessi virkjunaráform verða að veruleika. Ég stend með bóndanum.

Á einhverju plani er víst til uppkast að virkjun Markarfljóts. Þá yrði stíflað fyrir ofan foss við Emstrur, allur Þverárbotninn færi á kaf og Stóra-Grænafjall og Skiptingarhöfði yrðu eyjur í lóni sem næði inn að Krók. Einn sveitungur þakkaði fyrir að hann yrði líklega kominn undir græna þegar þetta gerist. Það verður amk vonandi seint, en þessi kostur þykir ekki mikið arðbær.

Ef þeir ná því í gegn einhverntímann að virkja þarna þá fer ég með tjald, hangiket og kaffi þarna innúr og tek upp setuverkfall  þar sem von verður á fyrstu jarðýtunni.

 

En aftur að nútímanum. Hér voru þrjár sæddar í dag: Tvær fengu úr Papa og ein úr Lunda. Þá er sæðingum lokið þetta árið. Alls sæddar 14 ær sem er hérumbil 10% stofnsins, sem er ágætt. Vonandi fáum við bara bæði góða hrúta og gimbrar úr þessu til ásetnings. Þá fer nú að batna fljótt stofninn hér.


Furðulegt háttarlag um nótt

Getur einhver sagt mér hver það er sem er á rauðum jeppa með leitarljós og keyrir um sveitir um miðja nótt lýsandi allt í kring um sig? Á fimmtudagskvöldi, keyrir hingað, skín í kringum sig og fer aftur, allt í algjöru tilgangsleysi. Skepnum er ekkert um þetta gefið og nógu erfitt að fá þær til að vera heima samt, þó að svona sé ekki gert.

Nú kemur jólasveinninn minn hann Keli í kvöld. Gott að fá aðstoðarmanninn í fjárhúsið. Við sæðum samt ekkert í dag, þ.s. það eru bara tvær að ganga. Það má geyma þær þangað til á morgun.


Hva, bara meira sætt

Jói kom aftur í dag og sæddi 6 ær. 3 fengu úr Blett og 3 úr Gaddi. Ég nefndi við hann að mér þætti forystuhrúturinn Tígull vera flottur, en þá sagðist hann hafa fengið skýrar leiðbeiningar frá sveitungunum að sæða hvorki með forystuhrút né neinum styggum hjá mér! Nú er ég aldeilis hissa á þessu.....Woundering

Ærnar okkar rata þó heim til sín, því til sönnunar eru amk 16 stykki núna rétt fyrir innan girðingu í Fellinu. Bara svolítið þrjóskar, en þær gætu þessvegna komið heim að húsi í nótt. Bara ef það snjóaði nú aðeins meira og smalaði fyrir okkur.


Heimalningarnir 8

Allir segja heimalingar, ég held að það eigi að skrifa heimalningar en í rauninni ætti þetta að vera heima-alningar, þ.e. þeir sem aldir eru heima. En eins og ég nefndi í gær þá voru hér 8 stk. pelalömb sumarið 1994. Síðan þá höfum við forðast þá eins og pestina.

Ég man nú ekki alveg hvert þeirra var fyrst, en það voru líklega Flekka og Drusli. Þau voru bæði úr sæðingum og því snemmfædd. Bæði alveg ótrúlegir aumingjar sem ekki tókst með nokkru móti að láta ganga undir mæðrum sínum, þá hefðu þau bara drepist. Nafnið Drusli er vísun í orðið drusla, sbr. tuskudrusla, en hann stóð varla í lappirnar og var slæmur í hnjánum alla sína ævi. Flekka var hársbreidd frá dauðanum þegar hún loksins fattaði að fara að sjúga pelann. Þá var móðir hennar löngu búin að gleyma henni. Flekka lifði svo líklega í 10 ár og á marga afkomendur. Drusli var settur á en festist í krapi í Marðaránni á sínum öðrum vetri og drapst þar.

Svo komu Snati og Tjása. Bæði grá. Ég fann Snata annan daginn og Tjásu hinn. Þau voru bæði eins og gamlar peysur, þau voru svo lin á löppunum. Eyrun á Snata löfðu niður og ullin var alveg slétt á bakinu á honum. Hann leit því út eins og hundur. Það var samt fyndnast þegar ég kom heim með hann. Ég lét Mömmu fá hann, og fór svo að gefa Pabba skýrslu. Þá kom Mamma hlaupandi úr eldhúsinu og sagði "hann er svolítið máttlaus, ég setti hann á gólfið og lappirnar fór bara út um allt!" á sinni góðu íslensku.

Svo kom Brella. Litla svarta barnið mitt. Hún vildi bara ekki sjúga móður sína !!! Skildum það aldrei, það var allt í lagi með hana. Hún fékk svo pela og þá var ekki aftur snúið.

Þegar hér var komið sögu gerðum við litla girðingu úti á túni og geymdum þennan fjölda þar, annars hefðu þau verið upp um allt og inni í húsi allan tímann. Einnig keyptum við poka af þurrmjólk fyrir kálfa og blönduðum í þau, það var miklu ódýrara en mjólk.

Svo fundum við Tunnu. Bíldótt, hafði flæmst frá móður sinni og var alveg kringlótt eins og tunna. Lifði í ein 9 eða 10 ár. Síðustu tveir voru Vindill sem við björguðum úr svelti í Þórólfsánni og Bangsi (minnir mig), annar undanvillingur.

Átta hálfstálpuð lömb gátu ekki verið heima. Við fórum með þau inn í Þórólfsárgljúfur en þar gátum við komist frá þeim með því að klifra upp klett og skilið þau eftir. Svo var það bara brúsi af blöndu á hverjum degi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband