Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Blesurnar

Ég nefndi í fyrri færslu þær Blesu og Gæfu og sögu af þeim en hún kemur núna.

 

Þær Blesa og Gæfa voru fæddar hvor á sínu árinu, 1994 og 1995, en líklega samt alsystur. Báðar svartblesóttar. Vorið 2005 eru þær orðnar heldur aldraðar fyrir ær, eða 10 og 11 vetra.

Báðar voru tvílemdar og voru færðar í hús nýbornar. Ekki tókst þetta nú betur en svo að bæði lömb Blesu drápust af ókunnum orsökum. Ég var sjálf ekki heima þegar þetta gerðist, kom um tveimur dögum seinna. Þegar ég kom út í fjárhús sá ég þær báðar þar, hvora með sínu lambinu og ályktaði auðvitað að þær væru báðar einlembdar. Frétti svo fljótt hið rétta. Næstu daga kom svo betur í ljós að Blesa var að fóstra bæði lömb systur sinnar, það var sitt á hvað sem lömbin voru hjá þeim.

Þegar þeim var sleppt út gættum við þess að þau færu öll saman. Fyrst voru þær í túninu einhvern tíma en svo heima við áfram nokkuð lengi. Að síðustu hvarf öll fjölskyldan til fjalla.

Nokkrum vikum síðar kom Blesa ein heim, jarmandi sorgartóni. Hafði greinilega orðið viðskila við systur sína og lömbin. Mér var skapi næst að fara í bíltúr með hana og reyna að finna hin, þar sem hún lét svoleiðis í nokkra daga.

Það fylgja hér tvær myndir af þeim öllum. Blesa er sú einhyrnda. Lömbin skiluðu sér aldrei af fjallinu, en ég sá sérstaklega eftir blesóttu gimbrinni sem hefði líklega fengið að heita Gæfu-Blesa eftir báðum mæðrum. Hin er mórauð og sést svolítið verr á myndunum, en hún er þarna samt.

2005-vor-027

2005-vor-041

Blesu og Gæfu var svo báðum lógað haustið 2005, enda vel fullorðnar. Blesa leyfði mér iðulega að klóra sér bak við eyrun og kom alltaf ef ég kallaði að ég væri með tuggu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband