Heimalningarnir 8

Allir segja heimalingar, ég held að það eigi að skrifa heimalningar en í rauninni ætti þetta að vera heima-alningar, þ.e. þeir sem aldir eru heima. En eins og ég nefndi í gær þá voru hér 8 stk. pelalömb sumarið 1994. Síðan þá höfum við forðast þá eins og pestina.

Ég man nú ekki alveg hvert þeirra var fyrst, en það voru líklega Flekka og Drusli. Þau voru bæði úr sæðingum og því snemmfædd. Bæði alveg ótrúlegir aumingjar sem ekki tókst með nokkru móti að láta ganga undir mæðrum sínum, þá hefðu þau bara drepist. Nafnið Drusli er vísun í orðið drusla, sbr. tuskudrusla, en hann stóð varla í lappirnar og var slæmur í hnjánum alla sína ævi. Flekka var hársbreidd frá dauðanum þegar hún loksins fattaði að fara að sjúga pelann. Þá var móðir hennar löngu búin að gleyma henni. Flekka lifði svo líklega í 10 ár og á marga afkomendur. Drusli var settur á en festist í krapi í Marðaránni á sínum öðrum vetri og drapst þar.

Svo komu Snati og Tjása. Bæði grá. Ég fann Snata annan daginn og Tjásu hinn. Þau voru bæði eins og gamlar peysur, þau voru svo lin á löppunum. Eyrun á Snata löfðu niður og ullin var alveg slétt á bakinu á honum. Hann leit því út eins og hundur. Það var samt fyndnast þegar ég kom heim með hann. Ég lét Mömmu fá hann, og fór svo að gefa Pabba skýrslu. Þá kom Mamma hlaupandi úr eldhúsinu og sagði "hann er svolítið máttlaus, ég setti hann á gólfið og lappirnar fór bara út um allt!" á sinni góðu íslensku.

Svo kom Brella. Litla svarta barnið mitt. Hún vildi bara ekki sjúga móður sína !!! Skildum það aldrei, það var allt í lagi með hana. Hún fékk svo pela og þá var ekki aftur snúið.

Þegar hér var komið sögu gerðum við litla girðingu úti á túni og geymdum þennan fjölda þar, annars hefðu þau verið upp um allt og inni í húsi allan tímann. Einnig keyptum við poka af þurrmjólk fyrir kálfa og blönduðum í þau, það var miklu ódýrara en mjólk.

Svo fundum við Tunnu. Bíldótt, hafði flæmst frá móður sinni og var alveg kringlótt eins og tunna. Lifði í ein 9 eða 10 ár. Síðustu tveir voru Vindill sem við björguðum úr svelti í Þórólfsánni og Bangsi (minnir mig), annar undanvillingur.

Átta hálfstálpuð lömb gátu ekki verið heima. Við fórum með þau inn í Þórólfsárgljúfur en þar gátum við komist frá þeim með því að klifra upp klett og skilið þau eftir. Svo var það bara brúsi af blöndu á hverjum degi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband