Pabbi hjálpsami

Núna er karl faðir minn orðinn svo hress eftir spítaladvölina fyrir viku að hann er meira að segja farinn að spranga óbeðinn út í fjárhús. Lítum á:

Í morgun skiptum við fénu sem er inni upp í tvo hópa, annan heldur mislitari en hinn. Stefndum að því að setja svo Frosta og Flekk hvorn í sinn hópinn eftir mat.

Þegar við komum heim talar Pabbi um hvort við förum ekki að setja hrúta í féð sem er heima, jú jú önsum við, eftir hádegi. Ætti ekki líka að sleppa út hrútum í féð sem er í heiðinni? Það væri ekki verra, svörum við einnig, við gerðum ráð fyrir að fara í það eftir mat. Á ekki bara að sleppa öllu fénu út? spyr hann að lokum. Nei, sjáðu til, við viljum hafa þær lokaðar inni með sínum hrút í nokkra daga enn.

Það er nú bara djöfulsins vitleysa, segir Pabbi.

Eftir mat, á þeim tíma sem Pabbi er nú vanalega að leggja sig, tekur Keli eftir því að hann er hvergi sjáanlegur og ákveður að drífa sig út í fjárhús. Um leið lít ég út um gluggann og sé Flekk koma út úr fjárhúsinu. Keli kemur út í hús og þar er Pabbi búinn að opna fyrir ærnar og semsagt ná í Flekk til að koma honum saman við hópinn. Ærnar voru nú þó ekki komnar út þar sem Spotti sat beint fyrir framan dyrnar.

Keli var eins og gefur að skilja reiður og Pabba fannst þetta fyndið. Þegar Pabbi kom inn fannst honum þetta enn fyndið og sagði Mömmu það. Hún minnti hann á það hann þyrfti bara að venjast þessu og að þetta hefði verið algjörlega óþarft hjá honum að vera að þessu.

Við skiptum fénu aftur, og það var alveg ljóst að nokkrar voru að ganga svo það er einmitt gott að okkur tókst að stöðva hann. Við slepptum ennfremur út þeim Sóla, Formanni og Funa svo þeir gætu farið og dandalast í heiðinni með fénu sem er á brúninni. Þær koma heim í heyið sem er á aurnum og koma vonandi nær fjárhúsinu næst.

Svo vona ég bara að ég geti haldið Pabba frá húsinu, að minnsta kosti þar til ég er búin að lista ærnar sem eru í hvorri kró.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband