Heimtum 9 lambhrúta!

Nú á einhver eftir að hvá...

...góði smalinn kom á svæðið á föstudag og bætti í á laugardag, þ.a. að vel hvítt var um morguninn. Svo milli élja í gær runnu kindahóparnir ofan úr brekku og í rúllurnar sem við stilltum upp úti fyrir þær. Þetta var ósköp spennandi, amk betra en venjuleg föstudags-dagskrá á ríkinu, lágum öll í stofuglugganum með kíki og skoðuðum féð. Enginn þorði út af ótta við að styggja þær og missa aftur upp í heiðar.

Þegar það var orðið vel skuggsýnt læddumst við fyrir féð. Vorum næstum búin að missa það, þökk sé einhverjum jepparibböldum sem voru að æfa vélar og ljós í nágrenninu. Kristján Hermann stökk þá í myrkrinu og náði fyrir féð, þá sneru þær við þægar og runnu inn í byrgi.

Fórum á álfadans u.m.f. Þórsmerkur að Goðalandi. Hittum sveitungana og sögðumst vera búin að heimta mikið.

Við rákum svo inn féð í morgun, Jens í Teigi var bara mættur fyrir klukkan 11 af einskærri forvitni og skoðaði féð með okkur. Við drógum 9, já ég sagði níu, lambhrúta úr hópnum. Það furðulega var að það var engin gimbur. Líklega engin ær nýheimt, en ég gáði ekki sérstaklega að því, það var þó engin í rúböggum sem ekki hafði komið áður í haust.

Nú eigum við skv. síðustu talningu 25 lambhrúta. Hér munu aftur allir spyrja hvort þetta sé eðlilegt. Við settum á fjóra til undaneldis og Frey og Krúna, syni Freyju, sem sauðaefni. Svo hafa bæst við 19 sem á bara eftir að gelda og senda í páskaslátrun. Við vitum að það eru fleiri inn á fjalli, vonandi nást þeir í tæka tíð til að slátra þeim líka.

Á sama tíma hafa sárafáar gimbrar bæst við, sennilega bara um 10, og við vorum búin að senda eitthvað af þeim í sláturhúsið í nóvember. Því eru flestar gimbrarnar til ásetnings eins og ætlað var og fáar óbeðnar inn á milli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband