Nú vantar næstum engar kindur...

Eftir síðustu fjallferð sveitunganna (sem þeir btw létu okkur ekki vita af frekar en fyrri daginn...) var komið með 6 kindur í hús til okkar. Tvær fullorðnar ær, einn útigenginn gemsa, tvo lambhrúta og eina gimbur. Þá vantar sem hér segir:

  • 7 ær fullorðnar
  • 4 gemsa (á öðrum vetri)
  • 4 lömb

Heima er til, þar sem ég var að telja úr bókunum fyrir skattmann:

  • 5 hrútar 
  • 150 ær og sauðir
  • 91 gemlingar (lömbin frá í fyrra) en eins og lesendum er kunnugt þá er um helmingurinn af þessu páskamatur....

Svona miðað við allt, þá held ég að það sé að verða komið. Þessar eldri ær, sumar þeirra eru bara gamlar eru líklega bara dauðar, þær yngri gætu nú vel verið á lífi enn. Það er enn vitað um nokkur stykki á flakki svo það getur vel verið að helmingurinn sé til. Mér finnst nú samt ágætt til þess að vita að aðeins 4 lömb af því sem sleppt var út í vor vanti ennþá, en ég hafði oft haft á tilfinningunni að mun fleira en það dræpist af óþekktum orsökum yfir sumarið.

Við förguðum líka henni Litlu-Botnu gömlu minni. Hún var 13 vetra, gamla ærin, og loks farin að láta á sjá, enda nánast tannlaus. Merkilegar samt þessar mórur mínar, þær eru hvað eftir annað að "missa af" sláturbílnum á haustin og alltaf ein og ein sem nær þessum aldri. Hún Morfín var orðin jafngömul minnir mig og líka Mýsla. Og Freyju hefði ég sett á ef hún hefði bara ekki verið svona lungnaveik endalaust. Þær bara virðast geta lifað ágætlega langt fram eftir öllu. Ekki má ég heldur gleyma þeim Blesu og Gæfu, blessuðum. Hef nú eina sögu að segja af þeim, sem ég læt flakka einhvern tímann.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já fögur er blessuð Fljótshlíðin-með fjallahringinn og sumarblæinn.....

Til hamingju með ykkar yndisreit og dásamlega fjarlægð til firringar og alheimsku borgarlífsins. Þið eruð mitt fólk. Vildi geta heimsótt ykkur og andað að mér sama fjallablænum og þið. Fengið að þukla hrútana og tylla mér svo á garðabandið og heyra rollurnar úða í sig heyinu.

Gamall brottfluttur bóndi að norðan og búsettur við Hlemm. Þvílík örlög!

Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 22:56

2 Smámynd: Anna Runólfsdóttir

Já, blessaður, svona er lífið, það er enginn staður til að búa á....

Anna Runólfsdóttir, 27.2.2007 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband