Kæru bloggvinir!!!

Nú sá ég að allir nema einn var búinn að skrifa eitthvað og ég þegi þunnu hljóði hérna, svo ég er svona með smá skilaboð til allra:

  • Guðrún: Til hamingju með kettlingana, fiðlu- og píanókennsluna, ofnana og eldhúsið
  • Jón Ingvar: I know what it feels like! Ég var út í Skotlandi þegar gengið var síðast hátt (en ekki svona hátt samt sem betur fer)
  • Matti: Til hamingju með stjórnendastöðuna, nú verður eitthvað fútt í þessu, þó ég hafi ekki mætt á síðustu tvær æfingar...
  • Birna Mjöll: Ég þekki þig ekki neitt en við erum samt bloggvinir. Ég las um Skotlandsferðina þína og fannst hún góð og vona að smalamennskur gangi betur hjá þér en mér.
  • Ólafur F: Þekki þig ekki heldur en finnst þú bara spes. Og hrekkjabrögðin þín eru frábær. Og til hamingju með nýju tölvuna.
  • Guðný og Reynir: Vona að þið verðið bara moldrík á þessum gengismun og haldið bara áfram að njóta lífsins þarna úti!
  • Binni: Frábær byrjun á skáldsögu, bara að Keli lesi þetta ekki, hehe. Sammála hverju orði með Fjallabakið. Ég fór í fyrsta skipti í nokkur ár í Krikann um daginn og hann verður bara fallegari.
  • Þórhildur: Mér finnst bara frábært að þetta gangi allt svona vel þarna fyrir austan hjá ykkur og að allir hafi nóg að gera og allt.
  • ÖLL: EKKI KLUKKA MIG OG EF ÞIÐ GERIÐ ÞAÐ ÞÁ SVARA ÉG EKKI

Af okkur er nú ekki margt að frétta og samt nokkrir hlutir:

  • Þorgerður er búin að vera í mánuð á leikskólanum og finnst frábært, syngur lög þaðan og lærir greinilega eitthvað nýtt.
  • Heyjuðum vel í sumar :) 
  • Smalamennskur teljast búnar að svona þremur fjórðungum. Vantar enn 60-70 ær og annað eins af lömbum. Það er nú bara alltaf fé út um allt hér.
  • Meðalfallþungi er um 15kg, einkunn vöðva 7.2 og fita 6.8 (bara fyrir bændur). Lömbin eru léttari en í fyrra :(
  • Við smölum meira um helgina og út mánuðinn, nú þarf að finna restina af lambhrútunum fyrir fellingu.
  • Spila enn í Svaninum en ætla að segja gjaldkerastöðunni lausri.
  • VST, sem varð VST-Rafteikning í sumar á að heita Verkís í framtíðinni. Sjá www.verkis.is

Bið að heilsa í bili, skrifa kannski meira fyrir jól!


Ykkur að segja...

... þá er ég á lífi!

Get ekki sagt margt samt, en kem með smá skeytastíl á þessu.

Er heima úr vinnunni með kvef dauðans, það er eeeekki gott kvef. *sýg í nef, hóst hóst*

Eitt lamb fæddist hjá okkur um Páskana, ærin hefur lembst í lok október þegar nokkrir lambhrútar voru í túninu. Við fundum hana rétt fyrir hádegi með haus og eina löpp af lambinu komið út. Það var merkilegt nokk enn lifandi og náðist úr ánni eftir smá tog en þá var hann bara svo illa bólginn greyið að hann gat ekkert andað. Dó stuttu síðar eftir munn við munn á fjárhúsgólfinu.

Kristján Hermann fósturbarnið fermist á sunnudaginn.

Þorgerður og TryggurÞorgerður stækkar og stækkar, hleypur um allt, hristir hausana á hrútunum í fjárhúsinu og smalar öllum rollunum þegar hún stappar um garðana. Og ákveður allt sjálf.Þorgerður að smala

Kláraði landbúnaðarskýrslu skattframtalsins um Páskana, gekk betur en á horfðist eftir smá klúður í vaskinum. Í lokin stemmdi framtalið við ársreikninginn sem er betra en Mömmu tókst nokkurn tímann. Þá hætti ég, enda ekki hægt að bæta þetta. Svo vill skatturinn sjá þetta allt hjá mér áður en þeir borga innskattinn...

Hef fengið ósk um nýjan bloggvin, get ekki ákveðið með hann þar sem hann er með læst blogg, en af nafninu að dæma er hann Vestur-Skaftfellingur og tenór, bara svipaður og Pabbi, jafnvel bara skyldur mér. Þætti vænt að vita eitthvað meira um hann áður en hann verður ákveðinn.

Svo þetta er staðan. Sauðburður hefst eftir mánuð, áburðurinn hefur HÆÆÆÆKKKKAÐ, eins gott að ég gekk frá pöntun um leið og verðskráin kom inn í febrúar. Vonum bara að sumarið verði gott, auðvitað eftir að vorið verður rosa gott.

Vorkveðjur til allra.


Gestabókin í Fljótsdal

Sum skrif í gestabókum eru leyndir fjársjóðir. Hér er ein slík færsla, myndin er teiknuð af mér í tölvunni eftir frummyndinni sem er í bókinni.

 

HMF7.9.‘87

HREYSTIMANNAFÉLAGIÐ
VAR HÉR.

Í þennan ágæta stað erum við komnir fjórir félagar í HMF. Var okkur tekið sem höfðingjar væru á ferð, boðið í stofu og á borð borið kaffi og kökur. Höfum vér riðið norðan jökla og drepið niður í tjald í tjaldagil við Brytalæki og svo í Hvanngili.

Vosbúð mikil hefur oss búin verið og hefur lítt verið á henni látið. Höfum við í þessu volki staðið hartnær 5 dægur. Þrátt fyrir vosbúð þessa teljum við oss hafa hamingjuna höndlað og er það fyrir tilstilli fegurðar og kyngikrapts Fjallabaka.

Gerum nú stutta sögu og drepur þar niður er Þórólfsá heitir. Litum við þá Fljótsdalinn og varð á orði: Fagur er dalur þessi er fyrir oss liggur og mun það ráð nærtækast að ganga þar til húsa og biðja ásjár. Fór það sem áður segir og mun það oss aldreigi úr minni líða og er það mál vort að hér búi höbbðingjar góðir og biðjum við alla hér lengi lifa og hamingju höndla. Heitum við ok ævarandi vináttu og tryggð.

Látum við hér fylgja með söng vorn einn er svo hljóðar:

Úti er úldin súld
fólkið hímir í höm
eins og hanar
hanar á heljar
hanar á heljarþröm.
er‘ða nema von
þó Ari Þari fari
á spánska bari.

Úti er fjúk og skaf
fólkið fennir í kaf
en Helga Hafstað
leggur spik af
af og til aftan að.
er‘ða nema von
þó Dísa Skvísa
selji ís í brauði.

Sandur er út‘um allt land
blandaður steinum í bland
en klettar detta í
hafið og skvetta á
Gretti og slökkva hans eld.
er‘ða nema von
þó rykið fjúki í
kokið á Loka í roki.

Úti er vosbúð og regn
fólkið blotnar í gegn
að teyga í tjaldi
með tappann í haldi
og vökva uns verður um megn.
er‘ða nema von
þó raki og klaki
braki að fjallanna baki.

Sveinbjörn Grön.
Ragnar Ómarsson
Þorsteinn Narfason
Rúnar

 Endilega látið vita ef ykkur líkar þessi færsla því það eru margar litlu síðri í bókinni.

Guðrún frænka mín kvartaði yfir litlum skrifum hjá mér...

... svo ég verð nú bara að bæta úr því eða hvað?

 

Við settum lömb í sumarslátrun í síðustu viku. Áttum pantað pláss fyrir 50 lömb en þegar við höfðum skoðað öll lömbin þá fannst okkur að við ættum bara rúmlega 40 sláturlömb en að þau sem eftir voru voru bara annað hvort of lítil, of rýr eða bæði.

Við fengum svo vigtarseðilinn í gær og þá datt nú bara andlitið af okkur...

  • 2 lömb í U (3 og 3+)
  • 40 lömb í R (2, 3 og 2 í 3+)
  • Ekkert O lamb!
  • Meðalvigt 16,87kg!

Af þessu má alveg draga þá ályktun að við hefðum getað verið aðeins grimmari, og fundið svona 5 lömb í viðbót þ.s. flokkurinn O2 er nú þannig lagað alls ekki svo slæmur. Léttustu lömbin að þessu sinni voru 12,8kg og R2 sem sýnir að næstu lömb þar fyrir neðan hefðu nú varla verið svo slæm heldur.

Okkur fannst nú bara þegar við horfðum á mikið af þeim lömbum sem við ákváðum að láta ekki að þar væri um að ræða P-lömb sem mega bæði við því að fitna og gefa auk þess engan álagsbónus fyrir að vera slátrað snemma.

 

Svo verð ég að bæta því við, svo því sé haldið til haga, að smölunin í aurnum gekk ótrúlega vel. Í fyrra náðum við að "fækka" nokkrum óþekkum kindum og settum ennfremur ekki á lömb undan þeim og það er bara strax að skila sér. Það var ein sem var svona leiðinleg að reka en ekki beint óþekk og smal sem við gerðum ráð fyrir að tæki 5 tíma tók aðeins 3. Við vorum komin heim í mat um kl. 1. Það munaði alveg hrikalega um hann Sigga á sínum jeppa, hann göslaði niður í Fljóti fyrir féð í Hólmunum og fannst auðvitað hrikalega gaman.

Næsta smal er áætlað laugardaginn 8. september og verður stór-smal í heiðinni með öllum tiltækum mannskap. Markús bað Mömmu alveg sérstaklega að fá að vita af því!


Rangt með farið

Þar sem ég bý þarna rétt hjá þykir mér rétt að benda á að þetta slys átti sér ekki stað þar sem malbikið endar, heldur líklega um 3 km innar eftir veginum.

Slysstaðurinn er við afleggjara heim að bæ, en við alla afleggjara myndast sérstaklega miklar holur í veginum og er geta þær jafnvel skotið vel vönum skelk í bringu ef maður er óviðbúinn eða lendir skakkt á þeim.

Því er ekki að neita að þar sem malbikið endar við Múlakot er ekki til neinnar fyrirmyndar, en það vill svo vel til að malbikið er svo óslétt áður en komið er að endanum á því að það eru allir búnir að hægja á sér niður í 60 þegar þeir keyra fram af!

Fljótshlíðarvegur er mjög vinsæll ferðamannavegur, bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn leggja leið sína um hann í hundraðavís á góðum degi eins og var í dag. Hann er allur úr grófustu möl sem er mjög laus í sér ofan á og miklar holur í hörðum vegbotninum mjög víða. Til að kóróna þetta þá var hann mjókkaður(!) fyrir um tveimur árum þ.a. nú verða allir að hægja verulega á sér til að geta mætt bíl ella eiga það á hættu að missa stjórn á ökutæki sínu.

Þessi vegur er bara orðinn þannig að ekki þarf óvanann til að lenda í slysi á honum.

 


mbl.is Algengt að erlendir ökumenn velti bílum á malarvegum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

17. júní á Austurvelli

Jæja, langt síðan ég skrifaði, sauðburðurinn skaust hér framhjá og barnið er farið að skríða...

Eftir að hafa verið á besta stað á Austurvelli í morgun þá hef ég svona nokkrar athugasemdir sem skemmtilegt væri að koma á framfæri.

  1. Veðrið var óneitanlega betra en síðast þegar ég var þarna, þá var rigning, ég var drullukvefuð og hélt ég myndi bara drepast þarna, kannski kafna af því ég var að reyna að hósta ekki mikið í beinni útsendingu.
  2. Það er verið að gera við Alþingishúsið, skiljanlegt, það hús þarfnast viðhalds jafnvel enn frekar en önnur og það gerist á sumrin. Það sem mér fannst þó skrýtnast var að á öðrum reykháfi hússins tróndi múrfata. Ég beið eftir vindhviðu sem hefði hent henni í hausinn á lögreglumanni þar fyrir neðan.
  3. Það voru einhverjar plöntur gróðursettar þarna, allt í kringum Jón Sigurðsson og einnig í beðum nær Alþingishúsinu. Mér datt í hug að kúahópur hefði sloppið þarna inn á völlinn í nótt og étið blómin af þeim öllum, var þetta e.t.v. þjóðarblómið sem hafði verið gróðursett þarna? Ef ég man rétt þá var það holtasóley, líklega blómstrar hún ekki alveg strax. Falleg blómstrandi blóm hefðu verið mun skárri.

Bara smá útúrdúr frá sveitinni, varð að létta á mér.


Fjárvís hinn nýji

Jæja, þar sem nú er verið að taka fjárræktina föstum tökum, með gæðastýringu, skýrsluhaldi og því öllu þá eru nú notaðar nýjustu aðferðir sem boðið er upp á. Nú hafa Bændasamtökin komið frá sér hinum nýja Fjárvísi sem er á netinu og eru þar inni öll gögn frá örófi (svona næstum því) af sauðfé á Íslandi. Svo ég skellti mér í djúpu laugina og fékk skrifaðgang í Fjárvís... Vil samt áður en lengra er haldið bara taka fram að ég er nokkuð viss um að þetta sé í besta lagi með þetta kerfi, það er bara ég sem er að lenda í hnökrum.

*** Sennilega skilur enginn þennan póst nema sauðfjárbændur og svoleiðis lið ***

Allar upplýsingar síðasta árs, sem var fyrsta árið okkar í skýrsluhaldinu, voru forskráðar í kerfinu, þ.e. eftir skil haustbókar. 

Það fyrsta sem ég gerði var að "drepa" nokkrar rollur sem voru ekki lengur í hópnum og gekk það nú bara ágætlega. Eftir það fór nú ýmislegt að koma í ljós sem var sent í langri ritgerð inn á Bændasamtök.

Svo ætlaði ég að setja á nokkrar af gimbrunum sem komu eftir skil haustbókarinnar. Þær eru komnar að burði svo ekki gekk að setja þær í sláturhúsið. Þá vill kerfið meina að öll lömb sem vantaði í haust hafi verið slátrað... og það er ekki hægt að "lífga við" lömb sem eru dauð (þó hægt að gera það við fullorðið fé).

Svo ætlaði ég að gefa ásetningslömbunum fullorðinsnúmer og var að skoða hvort listinn í tölvunni passaði nú ekki við bókina, með hliðsjón af atriðinu á undan. Þá sá ég að það vantaði lömb. Og fleiri lömb. Stuttu seinna var ég búin að átta mig á því að ásetningslömb undan ám sem var slátrað síðasta haust eru ekki inn í kerfinu. Þar sem ærin er dauð virðast lömbin ekki geta verið til... eða eitthvað.

Þetta voru nú stærstu atriðin sem ég bað um að þyrfti að gera eitthvað fyrir mig. Af öðrum atriðum má nefna að æviferilsskrá ánna birtist ekki (þ.e. hún kemur upp tóm), í sláturyfirliti síðasta árs vantar flokkun (gefin er fallþunginn samt...). Hér vantar náttúrulega líka lömbin undan kindum sem var fargað... Það væri ágætt að hafa þau inni ef lambið á móti er á lífi, sérstaklega þar sem það vantar allan grunn í þetta skýrsluhald.

Annars er þetta flott, eins og ég sagði efst þá held ég að þessi atriði séu svona byrjendaerfiðleikar hjá mér, sérstaklega þar sem það er bara eitt undirliggjandi ár í skýrsluhaldi. Ég er búin að setja inn nokkrar ættmæður í kerfið til að geta rakið mínar kindur, þó mórauðar og styggar séu. Þá er svo skemmtilegt að geta valið sæðingahrúta langt aftur um áratugi þar sem þeir eiga við.

Ekki er mælt með því að bændur með isdn noti fjárvís á netinu, en það er nú samt vel hægt, bara að fylgjast með rásastöðunni, og klikka þær niður aftur á milli.

Það er þægilegt að skrá afdrif, slátrun, fang og burð. Helsta vandamálið liggur e.t.v. í að lista ásett lömb sem ekki eru komin með gripanúmer. Svo vill mamma líka geta prentað út fjárbókina eins og hún leggur sig. Málið er nú samt að vera einmitt ekki með þetta á pappír. Við fengum útprentaða bók sem við notum út í fjárhúsi og færum svo gögnin inn á netið eftir á.

Í lokin þá verð ég að segja frá því að svo var ég að gefa þeim gimbrum sem eru í kerfinu gripanúmerin sín og tókst náttúrulega að gefa einni skakkt númer (eftir að merkið var komið í hana) svo ég verð víst að senda bændasamtökunum annan póst og biðja um leiðréttingu....


Að Morgunblaðið skuli láta þetta sjást!

Meðal vorboðanna eru menn í vöðlum með veiðistengur úti í miðjum vötum og ám, en stangveiðisumarið hófst formlega í gær.

Eru ekki fleiri en ég sem sjá villuna? Þeir sem skrifa um veiði eru gegnumgangandi að beygja veiðistöng vitlaust, hið rétta er stangir í þessu tilviki. Alltof algengt að sjá þetta skrifað. Ég get bara ekki lesið meira þetta fer svo í taugarnar á mér. (Hrollurinn fer alveg með mig)

Stengur - stangir

Hengur - hangir

Tengur - tangir


mbl.is Stangveiðisumarið hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blesurnar

Ég nefndi í fyrri færslu þær Blesu og Gæfu og sögu af þeim en hún kemur núna.

 

Þær Blesa og Gæfa voru fæddar hvor á sínu árinu, 1994 og 1995, en líklega samt alsystur. Báðar svartblesóttar. Vorið 2005 eru þær orðnar heldur aldraðar fyrir ær, eða 10 og 11 vetra.

Báðar voru tvílemdar og voru færðar í hús nýbornar. Ekki tókst þetta nú betur en svo að bæði lömb Blesu drápust af ókunnum orsökum. Ég var sjálf ekki heima þegar þetta gerðist, kom um tveimur dögum seinna. Þegar ég kom út í fjárhús sá ég þær báðar þar, hvora með sínu lambinu og ályktaði auðvitað að þær væru báðar einlembdar. Frétti svo fljótt hið rétta. Næstu daga kom svo betur í ljós að Blesa var að fóstra bæði lömb systur sinnar, það var sitt á hvað sem lömbin voru hjá þeim.

Þegar þeim var sleppt út gættum við þess að þau færu öll saman. Fyrst voru þær í túninu einhvern tíma en svo heima við áfram nokkuð lengi. Að síðustu hvarf öll fjölskyldan til fjalla.

Nokkrum vikum síðar kom Blesa ein heim, jarmandi sorgartóni. Hafði greinilega orðið viðskila við systur sína og lömbin. Mér var skapi næst að fara í bíltúr með hana og reyna að finna hin, þar sem hún lét svoleiðis í nokkra daga.

Það fylgja hér tvær myndir af þeim öllum. Blesa er sú einhyrnda. Lömbin skiluðu sér aldrei af fjallinu, en ég sá sérstaklega eftir blesóttu gimbrinni sem hefði líklega fengið að heita Gæfu-Blesa eftir báðum mæðrum. Hin er mórauð og sést svolítið verr á myndunum, en hún er þarna samt.

2005-vor-027

2005-vor-041

Blesu og Gæfu var svo báðum lógað haustið 2005, enda vel fullorðnar. Blesa leyfði mér iðulega að klóra sér bak við eyrun og kom alltaf ef ég kallaði að ég væri með tuggu.


Nú vantar næstum engar kindur...

Eftir síðustu fjallferð sveitunganna (sem þeir btw létu okkur ekki vita af frekar en fyrri daginn...) var komið með 6 kindur í hús til okkar. Tvær fullorðnar ær, einn útigenginn gemsa, tvo lambhrúta og eina gimbur. Þá vantar sem hér segir:

  • 7 ær fullorðnar
  • 4 gemsa (á öðrum vetri)
  • 4 lömb

Heima er til, þar sem ég var að telja úr bókunum fyrir skattmann:

  • 5 hrútar 
  • 150 ær og sauðir
  • 91 gemlingar (lömbin frá í fyrra) en eins og lesendum er kunnugt þá er um helmingurinn af þessu páskamatur....

Svona miðað við allt, þá held ég að það sé að verða komið. Þessar eldri ær, sumar þeirra eru bara gamlar eru líklega bara dauðar, þær yngri gætu nú vel verið á lífi enn. Það er enn vitað um nokkur stykki á flakki svo það getur vel verið að helmingurinn sé til. Mér finnst nú samt ágætt til þess að vita að aðeins 4 lömb af því sem sleppt var út í vor vanti ennþá, en ég hafði oft haft á tilfinningunni að mun fleira en það dræpist af óþekktum orsökum yfir sumarið.

Við förguðum líka henni Litlu-Botnu gömlu minni. Hún var 13 vetra, gamla ærin, og loks farin að láta á sjá, enda nánast tannlaus. Merkilegar samt þessar mórur mínar, þær eru hvað eftir annað að "missa af" sláturbílnum á haustin og alltaf ein og ein sem nær þessum aldri. Hún Morfín var orðin jafngömul minnir mig og líka Mýsla. Og Freyju hefði ég sett á ef hún hefði bara ekki verið svona lungnaveik endalaust. Þær bara virðast geta lifað ágætlega langt fram eftir öllu. Ekki má ég heldur gleyma þeim Blesu og Gæfu, blessuðum. Hef nú eina sögu að segja af þeim, sem ég læt flakka einhvern tímann.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband