Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
Þriðjudagur, 28. ágúst 2007
Guðrún frænka mín kvartaði yfir litlum skrifum hjá mér...
... svo ég verð nú bara að bæta úr því eða hvað?
Við settum lömb í sumarslátrun í síðustu viku. Áttum pantað pláss fyrir 50 lömb en þegar við höfðum skoðað öll lömbin þá fannst okkur að við ættum bara rúmlega 40 sláturlömb en að þau sem eftir voru voru bara annað hvort of lítil, of rýr eða bæði.
Við fengum svo vigtarseðilinn í gær og þá datt nú bara andlitið af okkur...
- 2 lömb í U (3 og 3+)
- 40 lömb í R (2, 3 og 2 í 3+)
- Ekkert O lamb!
- Meðalvigt 16,87kg!
Af þessu má alveg draga þá ályktun að við hefðum getað verið aðeins grimmari, og fundið svona 5 lömb í viðbót þ.s. flokkurinn O2 er nú þannig lagað alls ekki svo slæmur. Léttustu lömbin að þessu sinni voru 12,8kg og R2 sem sýnir að næstu lömb þar fyrir neðan hefðu nú varla verið svo slæm heldur.
Okkur fannst nú bara þegar við horfðum á mikið af þeim lömbum sem við ákváðum að láta ekki að þar væri um að ræða P-lömb sem mega bæði við því að fitna og gefa auk þess engan álagsbónus fyrir að vera slátrað snemma.
Svo verð ég að bæta því við, svo því sé haldið til haga, að smölunin í aurnum gekk ótrúlega vel. Í fyrra náðum við að "fækka" nokkrum óþekkum kindum og settum ennfremur ekki á lömb undan þeim og það er bara strax að skila sér. Það var ein sem var svona leiðinleg að reka en ekki beint óþekk og smal sem við gerðum ráð fyrir að tæki 5 tíma tók aðeins 3. Við vorum komin heim í mat um kl. 1. Það munaði alveg hrikalega um hann Sigga á sínum jeppa, hann göslaði niður í Fljóti fyrir féð í Hólmunum og fannst auðvitað hrikalega gaman.
Næsta smal er áætlað laugardaginn 8. september og verður stór-smal í heiðinni með öllum tiltækum mannskap. Markús bað Mömmu alveg sérstaklega að fá að vita af því!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)