Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Fjárvís hinn nýji

Jæja, þar sem nú er verið að taka fjárræktina föstum tökum, með gæðastýringu, skýrsluhaldi og því öllu þá eru nú notaðar nýjustu aðferðir sem boðið er upp á. Nú hafa Bændasamtökin komið frá sér hinum nýja Fjárvísi sem er á netinu og eru þar inni öll gögn frá örófi (svona næstum því) af sauðfé á Íslandi. Svo ég skellti mér í djúpu laugina og fékk skrifaðgang í Fjárvís... Vil samt áður en lengra er haldið bara taka fram að ég er nokkuð viss um að þetta sé í besta lagi með þetta kerfi, það er bara ég sem er að lenda í hnökrum.

*** Sennilega skilur enginn þennan póst nema sauðfjárbændur og svoleiðis lið ***

Allar upplýsingar síðasta árs, sem var fyrsta árið okkar í skýrsluhaldinu, voru forskráðar í kerfinu, þ.e. eftir skil haustbókar. 

Það fyrsta sem ég gerði var að "drepa" nokkrar rollur sem voru ekki lengur í hópnum og gekk það nú bara ágætlega. Eftir það fór nú ýmislegt að koma í ljós sem var sent í langri ritgerð inn á Bændasamtök.

Svo ætlaði ég að setja á nokkrar af gimbrunum sem komu eftir skil haustbókarinnar. Þær eru komnar að burði svo ekki gekk að setja þær í sláturhúsið. Þá vill kerfið meina að öll lömb sem vantaði í haust hafi verið slátrað... og það er ekki hægt að "lífga við" lömb sem eru dauð (þó hægt að gera það við fullorðið fé).

Svo ætlaði ég að gefa ásetningslömbunum fullorðinsnúmer og var að skoða hvort listinn í tölvunni passaði nú ekki við bókina, með hliðsjón af atriðinu á undan. Þá sá ég að það vantaði lömb. Og fleiri lömb. Stuttu seinna var ég búin að átta mig á því að ásetningslömb undan ám sem var slátrað síðasta haust eru ekki inn í kerfinu. Þar sem ærin er dauð virðast lömbin ekki geta verið til... eða eitthvað.

Þetta voru nú stærstu atriðin sem ég bað um að þyrfti að gera eitthvað fyrir mig. Af öðrum atriðum má nefna að æviferilsskrá ánna birtist ekki (þ.e. hún kemur upp tóm), í sláturyfirliti síðasta árs vantar flokkun (gefin er fallþunginn samt...). Hér vantar náttúrulega líka lömbin undan kindum sem var fargað... Það væri ágætt að hafa þau inni ef lambið á móti er á lífi, sérstaklega þar sem það vantar allan grunn í þetta skýrsluhald.

Annars er þetta flott, eins og ég sagði efst þá held ég að þessi atriði séu svona byrjendaerfiðleikar hjá mér, sérstaklega þar sem það er bara eitt undirliggjandi ár í skýrsluhaldi. Ég er búin að setja inn nokkrar ættmæður í kerfið til að geta rakið mínar kindur, þó mórauðar og styggar séu. Þá er svo skemmtilegt að geta valið sæðingahrúta langt aftur um áratugi þar sem þeir eiga við.

Ekki er mælt með því að bændur með isdn noti fjárvís á netinu, en það er nú samt vel hægt, bara að fylgjast með rásastöðunni, og klikka þær niður aftur á milli.

Það er þægilegt að skrá afdrif, slátrun, fang og burð. Helsta vandamálið liggur e.t.v. í að lista ásett lömb sem ekki eru komin með gripanúmer. Svo vill mamma líka geta prentað út fjárbókina eins og hún leggur sig. Málið er nú samt að vera einmitt ekki með þetta á pappír. Við fengum útprentaða bók sem við notum út í fjárhúsi og færum svo gögnin inn á netið eftir á.

Í lokin þá verð ég að segja frá því að svo var ég að gefa þeim gimbrum sem eru í kerfinu gripanúmerin sín og tókst náttúrulega að gefa einni skakkt númer (eftir að merkið var komið í hana) svo ég verð víst að senda bændasamtökunum annan póst og biðja um leiðréttingu....


Að Morgunblaðið skuli láta þetta sjást!

Meðal vorboðanna eru menn í vöðlum með veiðistengur úti í miðjum vötum og ám, en stangveiðisumarið hófst formlega í gær.

Eru ekki fleiri en ég sem sjá villuna? Þeir sem skrifa um veiði eru gegnumgangandi að beygja veiðistöng vitlaust, hið rétta er stangir í þessu tilviki. Alltof algengt að sjá þetta skrifað. Ég get bara ekki lesið meira þetta fer svo í taugarnar á mér. (Hrollurinn fer alveg með mig)

Stengur - stangir

Hengur - hangir

Tengur - tangir


mbl.is Stangveiðisumarið hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband