Gestabókin í Fljótsdal

Sum skrif í gestabókum eru leyndir fjársjóðir. Hér er ein slík færsla, myndin er teiknuð af mér í tölvunni eftir frummyndinni sem er í bókinni.

 

HMF7.9.‘87

HREYSTIMANNAFÉLAGIÐ
VAR HÉR.

Í þennan ágæta stað erum við komnir fjórir félagar í HMF. Var okkur tekið sem höfðingjar væru á ferð, boðið í stofu og á borð borið kaffi og kökur. Höfum vér riðið norðan jökla og drepið niður í tjald í tjaldagil við Brytalæki og svo í Hvanngili.

Vosbúð mikil hefur oss búin verið og hefur lítt verið á henni látið. Höfum við í þessu volki staðið hartnær 5 dægur. Þrátt fyrir vosbúð þessa teljum við oss hafa hamingjuna höndlað og er það fyrir tilstilli fegurðar og kyngikrapts Fjallabaka.

Gerum nú stutta sögu og drepur þar niður er Þórólfsá heitir. Litum við þá Fljótsdalinn og varð á orði: Fagur er dalur þessi er fyrir oss liggur og mun það ráð nærtækast að ganga þar til húsa og biðja ásjár. Fór það sem áður segir og mun það oss aldreigi úr minni líða og er það mál vort að hér búi höbbðingjar góðir og biðjum við alla hér lengi lifa og hamingju höndla. Heitum við ok ævarandi vináttu og tryggð.

Látum við hér fylgja með söng vorn einn er svo hljóðar:

Úti er úldin súld
fólkið hímir í höm
eins og hanar
hanar á heljar
hanar á heljarþröm.
er‘ða nema von
þó Ari Þari fari
á spánska bari.

Úti er fjúk og skaf
fólkið fennir í kaf
en Helga Hafstað
leggur spik af
af og til aftan að.
er‘ða nema von
þó Dísa Skvísa
selji ís í brauði.

Sandur er út‘um allt land
blandaður steinum í bland
en klettar detta í
hafið og skvetta á
Gretti og slökkva hans eld.
er‘ða nema von
þó rykið fjúki í
kokið á Loka í roki.

Úti er vosbúð og regn
fólkið blotnar í gegn
að teyga í tjaldi
með tappann í haldi
og vökva uns verður um megn.
er‘ða nema von
þó raki og klaki
braki að fjallanna baki.

Sveinbjörn Grön.
Ragnar Ómarsson
Þorsteinn Narfason
Rúnar

 Endilega látið vita ef ykkur líkar þessi færsla því það eru margar litlu síðri í bókinni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Markúsdóttir

Var einmitt að lesa gamlar gestabækur frá mömmu um daginn. Þar leynist margt skemmtilegt og fróðlegt. Takk fyrir þetta.

Guðrún Markúsdóttir, 16.12.2007 kl. 02:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband